Almennar upplýsingar til að hafa í huga fyrir og eftir Fitueyðingu
Fjöldi meðferða: Áætla má að framkvæma þurfi meðferð í 2-6 skipti til að ná sem bestum árangri, breytilegt er eftir meðferðarsvæði og líkamlegu ástandi hversu margar meðferðir þarf. Að lágmarki 6-8 vikur þurfa að líða á milli meðferða, fer eftir meðferðarsvæði.
Nokkuð persónubundið er hversu fljótt árangur byrjar að koma fram og getur það verið allt frá 2-3 vikum eftir meðferð. Algengt er þó að það taki u.þ.b. 4 mánuði að sjá fullan árangur af meðferð.
Fyrir meðferð: Til að draga úr líkum á bólgu og mari eftir meðferð er gott að hafa í huga að gera hlé á notkun magnyls og annarra blóðþynnandi lyfja í 3-5 daga fyrir meðferð sé þess kostur. Það sama á við um inntöku lýsis og áfengis, sem bæði hafa blóðþynnandi áhrif.
Eftir meðferð: Roði getur verið til staðar í nokkrar klukkustundir eftir meðferð og mar getur einnig myndast. Meðferðarsvæði bólgnar í langflestum tilfellum og getur bólga verið talsverð fyrstu dagana eftir meðferð.
Strax eftir meðferð má gera ráð fyrir að meðferðarsvæði sé aumt og viðkvæmt. Eymsli við snertingu geta verið til staðar í nokkrar vikur. Doði getur einnig verið til staðar á meðferðarsvæði fyrst eftir meðferð. Hann hverfur með tímanum en það getur tekið nokkrar vikur/mánuði. Hnúðar geta verið til staðar á meðferðarsvæði, en leysast jafnan upp á u.þ.b. mánuði.
Mælt er með að kæla meðferðarsvæði vel fyrstu 2-3 daga eftir meðferð þar sem það dregur verulega úr bólgumyndun. Gott er einnig að drekka vel af vatni, sérstaklega á meðan bólga er enn til staðar. Stuðningsflíkur eru mikilvægar fyrst eftir meðferð og er mælt með notkun þeirra á meðferðarsvæði allan sólarhringinn fyrstu 3 dagana eftir meðferð og í 12 klst. á dag í viku til viðbótar.
Einungis skal nota mildar og græðandi húðvörur á meðferðarsvæði fyrstu vikuna eftir meðferð og forðast áreynslu, sund og neyslu áfengis í sólarhring eftir meðferð. Einnig skal sleppa húðmeðferðum á meðferðarsvæði í 6 vikur eftir meðferð.
Forðast skal sól, öfgakennd veðurskilyrði, ljósabekki og gufuböð í a.m.k. 2 daga eftir meðferð. Myndist mar skal forðast framangreint á meðan það jafnar sig til að koma í veg fyrir litabreytingar. Nota skal sterka sólarvörn á meðan meðferðarsvæði jafnar sig.
Flestir geta haldið áfram með daglegt líf strax að meðferð lokinni en sé þörf á verkjastillingu eftir meðferð er mælt með inntöku á verkjalyfinu Paracetamol. Við notkun á barnamagnyl eða öðrum blóðþynnandi lyfjum er hætta á aukinni blæðingu og mari frá stungustað.