Hvað er naglasveppur?
Naglasveppur er sýking sem byrjar jafnan í naglabeðinu og færist svo smám saman yfir í nöglina sjálfa. Oft berst sýkingin í naglabeðið í gegnum sprungur í nöglum eða áverka í aðliggjandi húð. Til eru mismunandi tegundir af sveppum og geta þær jafnvel smitast yfir í aðrar neglur.
Einkenni naglasvepps geta m.a. verið bognar og ójafnar neglur, hvítur, gulur eða gulbrúnn litur á nöglum og vond lykt. Auk þess eiga neglur það til að brotna og klofna auðveldlega og jafnvel losna frá naglabeði ef sveppur er rótgróinn.
Áður en meðferð er hafin er gott að fá greiningu á að um naglasvepp sé að ræða þar sem einkenni Psoriasis í nöglum geta verið mjög svipuð einkennum naglasvepps.