Meðferð við vörtum og húðsepum
Húðfegrun býður upp á tvær mismunandi meðferðir sem vinna vel á vörtum og húðsepum. Meðferð má annars vegar framkvæma með nýjustu lasertækni sem býðst á markaðnum eða með frystingu. Fer það eftir húðgerð, formi, stærð og staðsetningu vörtu/húðsepa hvor meðferðin hentar betur.
Sé meðferð framkvæmd með lasertækni er lasergeislanum beint á vörtuna/kringum húðsepann og vartan/húðsepinn þar með brennd í burtu.
Sé frystimeðferð framkvæmd er samþjappað níturoxíð hins vegar notað til að frysta millifrumuvökva og mynda ískristalla sem rjúfa frumuhimnu viðkomandi frumu og eyða henni.
Hvað eru vörtur?
Vörtur eru veirusýking í húð sem smitast með beinni snertingu eða snertingu við sýkta hluti. Þeim má lýsa sem hörðum og hrjúfum hnútum sem oft eru húðlitaðir og kringlóttir en geta þó verið hrjúfir og haft grófar útlínur. Vörtur eru yfirleitt saklausar en geta þó valdið kláða og sársauka. Algengt er að vörtur myndist á fingrum, handarbökum, hnjám og iljum og hverfa vörtur á höndum og fótum venjulega á 6-24 mánuðum án meðhöndlunar. Í flestum tilfellum er hægt að greina vörtur með því einu að horfa á þær en í einstaka tilfelli getur þurft að taka sýni til frekari greiningar.