Hvað eru vörtur?
Vörtur eru veirusýking í húð sem smitast með beinni snertingu eða snertingu við sýkta hluti. Þeim má lýsa sem hörðum og hrjúfum hnútum sem oft eru húðlitaðir og kringlóttir en geta þó verið hrjúfir og haft grófar útlínur. Vörtur eru yfirleitt saklausar en geta þó valdið kláða og sársauka. Algengt er að vörtur myndist á fingrum, handarbökum, hnjám og iljum og hverfa vörtur á höndum og fótum venjulega á 6-24 mánuðum án meðhöndlunar. Í flestum tilfellum er hægt að greina vörtur með því einu að horfa á þær en í einstaka tilfelli getur þurft að taka sýni til frekari greiningar.